Fréttir | 11. mars 2019 - kl. 12:04
Skagaströnd kaupi land og fasteignir golfklúbbsins

Golfklúbbur Skagastrandar hefur óskað eftir því við sveitarstjórn Skagastrandar að kannaðar verði forsendur fyrir því að sveitarfélagið kaupi bæði land og fasteignir golfklúbbsins. Golfklúbburinn sendi erindi til sveitarstjórnar nýverið og var fjallað um það á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku. Í erindinu var einnig óskað eftir styrk til þess að endurnýja nauðsynlegan tækjakost með hækkun á framlandi til klúbbsins.

Sveitarstjórn ræddi erindi golfklúbbsins og var sveitarstjóra falið að gera drög að útfærslu á styrkbeiðninni og hugsanlegum kaupum á landi og fasteignum golfklúbbsins, í samráði við formann hans.

Golfklúbbur Vindhælishrepps hins forna var stofnaður formlega 27. nóvember árið 1985 en nafni hans var breytt í maí árið 1986 í Golfklúbb Skagastrandar. Sama sumar eignaðist klúbburinn fyrsta landsvæðið og var þar gerður sex holu völlur sem fékk nafnið Háagerðisvöllur. Árið 1990 keypti Golfklúbburinn viðbótar land og hóf uppbyggingu að níu holu golfvelli sem var kominn í fagnið árið eftir ásamt golfskála. Þá var gamalli hlöðu breytt í áhaldageymslu árið 1994. Nánar má lesa um sögu klúbbsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga