Fréttir | 11. mars 2019 - kl. 13:10
20 verkefni í Ræsingu á Norðurlandi vesta

Tólf verkefni eru í gangi í Húnavatnssýslum og átta í Skagafirði í tengslum við samkeppnina Ræsing á Norðurlandi vestra sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands og sveitarfélögin á svæðinu efndu til í upphafi árs. Samkeppnin fjallar um góðar viðskiptahugmyndir þar sem einstaklingum, hópum og fyrirtækjum var boðið að sækja um þátttöku í verkefninu. 

Þátttakendur fá 10-12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín en á þeim tíma fá þeir fræðslu og mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar auk annarra aðila við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði.

Þrjár milljónir eru settar í þróunarpott til að standa straum af verðlaunum og hugsanlegum kostnaði við gerð viðskiptaáætlananna. Sigurvegari hlýtur allt að eina milljón í verðlaun. Einungis verkefni með heildstæða viðskiptaáætlun fara fyrir dómnefnd og eiga kost á verðlaunum. 

Dómnefnd getur úrskurðað að engin viðskiptaáætlun hljóti fyrsta sætið eða að deila eigi fyrstu verðlaunum með fleiri þátttakendum.

Sagt er frá þessu á vef SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga