Fréttir | 12. mars 2019 - kl. 11:26
Blönduós í þættinum Um land allt

Í gærkvöldi var Blönduós til umfjöllunar í þættinum Um land allt sem sýndur er á Stöð 2 með hinum geðþekka fréttamanni Kristjáni Má Unnarssyni. Í þættinum var fjallað um íbúafjölgun, byggingu nýrra íbúða, smíði gagnavers og áhugaverð fyrirtæki sem blómstra í bænum. Þá var fjallað um starfið í Kvennaskólanum, Heimilisiðnaðarsafnið og Blöndustöð, og um verkefnið að gera gamla bæinn á Blönduósi að verndarsvæði í byggð. Þátturinn var bráðskemmtilegur og áhugaverður og greinilegt að mikil bjartsýni ríkir á Blönduósi.

Viðmælendur Kristjáns Más í þættinum eru m.a. Valdimar O. Hermannson sveitarstjóri, Valgarður Hilmarsson umsjónamaður byggingu gagnavers, Zophonías Ari Lárusson framkvæmdastjóri hjá Ísgel, Kári Kárason framkvæmdastjóri Vilko, Guðmundur Arnar Sigurjónsson framkvæmdastjóri Trésmiðjunnar Stíganda, Elín Sigurðardóttir forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins, Péturína Laufey Jakobsdóttir skrifstofustjóri hjá Léttitækni, Sigurgeir Þór Jónasson rafmagnsverkfræðingur hjá Átak rafmagnsverkstæði, Elsa Arnardóttir forstöðumann Textílmiðstöðvar Íslands, Jóhanna Erla Pálmadóttir verkefnisstjóra, Edda Brynleifsdóttir hjá Ferðamálafélagi Austur-Húnvetninga og Jónas Þór Sigurgeirsson í Blöndustöð.

Þáttinn er aðeins hægt að sjá í læstri dagskrá og verður hægt að nálgast hann á Stöð 2 Maraþon innan skamms.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga