Fréttir | 20. mars 2019 - kl. 15:54
Frumvarpi um breytingu á lögum um náttúruvernd mótmælt

Byggðarráð Húnaþings vestra mótmælir harðlega fyrirhuguðum breytingum á lögum um náttúruvernd sem áformað er að leggja fram á vorþingi 2019. Lagðar eru m.a. til breytingar í því skyni að styrkja almannarétt einstaklinga sem ferðast um óræktuð eignarlönd í byggð. Byggðarráð gerir alvarlegar athugasemdir við það ákvæði og segir í bókun ráðsins að það hljóti alltaf að vera réttur landeigenda að takmarka aðgengi að afgirtu landi í byggð. Land sé almennt ekki girt af að ástæðulausu. Þar geti bæði legi að baki landverndarsjónarmið, dýravelferðarsjónarmið auk nýtingarsjónarmiða.

Í bókuninni er tekið sem dæmi að bændur þurfi að takmarka aðgengi að hólfum þar sem búfénaði er beitt og geti það bæði varðað velferð búfjár og almennings. Þá geti viðkomandi land verið í uppgræðslu- eða skógræktarferli og gæti óheftur aðgangur almennings í miklum mæli stórraskað viðkomandi starfi.

Í þriðju grein breytinganna er lagt til að heimilt verið að takmarka fjölda ferðamanna um tiltekin svæði í kjölfarið á rökstuddu mati sem byggt er á þolmarkagreiningu svæðis, sem þarf að vinna af Umhverfisstofnun og auglýsa í Stjórnartíðindum áður en viðkomandi takmörkun verður staðfest. Byggðarráð getur ekki séð að mikil náttúruvernd sé fólgin í ákvæðinu, enda viðbúið að verkferli sem þetta taki töluverðan tíma og væri þá jafnvel búið að vinna óbætandi tjón á viðkomandi svæði áður en takmörkun tæki gildi.

Í bókun byggðarráðs Húnaþings vestra segir að lokum: „Frumvarpið í heild virðist ekki til þess fallið að auka náttúruvernd, enda fyrirséð að fyrirhugaðir verkferlar taki langan tíma, ásamt því að eingöngu er heimilt að taka gjald af ferðaþjónustu í atvinnurekstri en ekki af ferðamönnum sem ferðast um á bílaleigubílum. Þá er freklega brotið á rétti landeigenda hvað varðar umráð yfir eigin landi. Engar tölur liggja fyrir í greinargerð um að skipulagðar hópferðir eyðileggi land frekar en ferðamenn á bílaleigubílum, og má í framhaldinu velta fyrir sér hvort hér sé um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ræða.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga