Ljósm: FB/Aðdáendasíða Kormáks.
Ljósm: FB/Aðdáendasíða Kormáks.
Fréttir | 14. apríl 2019 - kl. 10:26
Tap í Mjólkurbikarnum

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar í knattspyrnu karla spilaði leik í Mjólkurbikarnum í gær er það keppti við lið Hvíta riddarans. Leikurinn fór fram á Varmárvelli í Mosfellsbæ og er skemmst frá því að segja að leikurinn tapaðist þar sem leikmenn Hvíta riddarans skoruðu fimm mörk á móti einu marki frá Hilmari Þór Kárasyni leikmanni Kormáks/Hvatar.

Stefnir Guðmundsson kom Hvíta riddaranum yfir strax á 19. mínútu og rétt fyrir leikhlé tvöfaldaði liði forystuna með marki frá Agli Jóhannssyni. Á 45. mínútu skoraði Eiríkur Þór Bjarkason þriðja mark Hvíta riddarans en þá var komið að Hilmari Þór Kárasyni sem minnkaði muninn fyrir Kormák/Hvöt og staðan orðin 3-1. Aðeins tveimur mínútum seinna bætti Hvíti riddarinn við sínu fjórða marki er Hlynur Rafn Rafnsson skoraði og á lokamínútu leiksins skoraði svo Eiríkur Þór sitt annað mark í leiknum og kom Hvíta riddaranum fyrir 5-1 sem urðu úrslit leiksins.

Kormákur/Hvöt leikur því ekki fleiri leiki í Mjólkurbikarnum á þessu ári.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga