Ljósm: hunathing.is
Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 21. apríl 2019 - kl. 11:46
Sumardeginum fyrsta fagnað á Hvammstanga

Boðað er til hátíðarhalda á Hvammstanga í tilefni af sumarkomu og fara þau fram í félagsheimilinu á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Dagskráin hefst klukkan 14:00 með skrúðgöngu frá félagsheimilinu með viðkomu við sjúkrahúsið. Eftir skrúðgönguna hefst hefðbundin dagskrá í félagsheimilinu þar sem Vetur konungur afhendir Sumardísinni völdin og sumarið hefur innreið sína með söng og gleði.

Nokkrar umferðir verða síðan spilaðar af Bingó í boði fyrirtækja í Húnaþingi vestra. Landsbankinn á Hvammstanga býður í tilefni sumarkomunnar öllum íbúum Húnaþings vestra og gestum og gangandi í sumarkaffi í félagsheimilinu frá því að skrúðgöngu lýkur til klukkan 16:30.

Á vef Húnaþings vestra segir að upphaflega hafi verið stofnað til hátíðahalda í tilefni sumardagsins fyrsta af þáverandi Fegrunarfélagi og sé þetta í 63. sinn sem þau eru haldin með þessu sniði. Félagið stóð fyrir gróðursetningu og byggði upp garðinn við sjúkrahúsið.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga