Ljósm: FB/Lögreglan á Norðurlandi vestra.
Ljósm: FB/Lögreglan á Norðurlandi vestra.
Fréttir | 24. apríl 2019 - kl. 06:43
Hratt ekið um páskana

Mikil umferð var um löggæslusvæði lögreglunnar á Norðurlandi vestra um liðna páska og skiptu bifreiðarnar þúsundum suma dagana, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni. Heilt yfir gekk umferðin vel og nánast óhappalaus. Tvö minniháttar umferðaróhöpp urðu en meiðslalaus. Umferðarhraðinn var þó allt of hár og voru hátt í á fjórða hundrað ökumenn kærðir vegna umferðarlagabrota og þá aðallega vegna hraðaksturs. Í fyrra voru 250 ökumenn kærðir og er aukningin því mikil milli ára.

„Þessi málaflokkur er ofarlega í huga embættis lögreglustjórans á Norðurlandi vestra og verður áfram unnið ötullega í því að ná umferðarhraða niður og með því fækka umferðarslysum sem að leiða má líkum að tengist honum,“ segir í tilkynningunni sem birt var á Facebook síðdegis í gær.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi varð alvarlegt umferðarslys á þjóðveginum í botni Langadals skammt vestan við Húnaver. Loka þurfti þjóðveginum um tíma og var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang til að flytja slasaðan ökumann bílsins til Reykjavíkur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga