Holur á Vatnsnesvegi.
Holur á Vatnsnesvegi.
Fréttir | 08. maí 2019 - kl. 09:55
Frekari uppbygging Vatnsnesvegar ekki á áætlun

Vegagerðin hefur í vetur unnið að endurbótum á Vatnsnesvegi. Ríkisútvarpið sagði nýverið frá því að um þessari mundir væri verið að klára að skipta út fjórum gömlum brúm og setja ræsi og er haft eftir Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra, að þær framkvæmdir væru vel á veg komnar. Þá muni framkvæmdum við Tjarnará ljúka í haust og verði það mikil samgöngubót. Betur má ef duga skal og segir Guðný Hrund í samtali við Ríkisútvarpið að ástand vegarins sé annars óbreytt og ekkert í pípunum sem breyti því.

Umferð um Vatnsnes hefur stóraukist undanfarin ár enda margir þekktir ferðamannastaðir á leiðinni. Vegurinn er malarvegur og þegar verst lætur er hann talinn hættulegur ökumönnum.

Íbúar hafa ítrekað óskað eftir endurbótum á veginum og vonast til að hann yrði lagaður sem fyrst. Guðný Hrund segir í samtali við Ríkisútvarpið að það hafi kannski verið barnalegt af þeim en þau hafi verið orðin bjartsýn á að eitthvað yrði gert. Það sé því þungt hljóð í íbúum þar sem það virðist ekki vera á dagskrá á næstunni.

Að sögn Guðnýjar hafa þau ekki orðið vör við neina innviðainnspýtingu eins og mikið hafi verið talað um og það fé sem Vegagerðin fái sé ekki í samræmi við þá þjónustu sem henni er ætlað að veita. Guðný segir að ástand vegarins sé ágætt í augnablikinu og íbúar krossleggi fingur um að sumarið og haustið verði vætulítið.

Í frétt Ríkisútvarpsins er einnig rætt við Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóra á norðursvæði Vegagerðarinnar. Hann segir frekari uppbyggingu á veginum ekki á áætlun. Ný fimm ára samgönguáætlun verði gerð á haustþingi og vonandi sjái þau fjármagn á henni. Gunnar segir lítið fé fara í tengivegi sem þennan og svona langur vegkafli þyrfti helst að fá sérstaka fjárveitingu. Hann segir að Vegagerðin reyni að halda veginum við með heflun og rykbindingu en það sé erfitt að eiga við malarvegi þar sem einungis þurfi eina mikla rigningu til að allt fari úr skorðum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga