Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 08. maí 2019 - kl. 10:55
Aðalskipulag Skagastrandar í endurskoðun

Á vef Skagastrandar má finna lýsingu á endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins. Lýsingin er verkáætlun um mótun tillögu að endurskoðun á gildandi aðalskipulagi þar sem tildrögum og fersendum skipulagsgerðarinnar er lýst og áherslur sveitarstjórnar dregnar fram ásamt tímaáætlun skipulagsferilsins. Með lýsingunni er verkefnið kynnt til að auðvelda íbúum og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta, að taka þátt í mótun endurskoðaðrar skipulagsáætlunar og koma athugasemdum á framfæri.

Sveitarstjórn Skagastrandar hóf vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins á síðasta ári. Haldinn var kynningarfundur um verkefnið í nóvember síðastliðnum þar sem íbúum var gefinn kostur á að koma hugmyndum á framfæri. Gert er ráð fyrir að vinna við aðalskipulagið verði í gangi fram eftir árinu 2021.

Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnumótun um framtíðarþróun í sveitarfélaginu um landnotkun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi. Markmið er að hafa virkt stjórntæki sem nýtist beint við ákvarðanatöku. Aðalskipulagið nýtist einnig við gerð annarra áætlana er snerta ráðstöfun lands á einn eða annan hátt og aðrar skipulagsáætlanir innan sveitarfélagsins skulu vera í samræmi við það.

Lýsinguna má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga