Verkefnið Plastpokalaust samfélag á Blönduósi hefur verið í gangi frá árinu 2017.
Verkefnið Plastpokalaust samfélag á Blönduósi hefur verið í gangi frá árinu 2017.
Fréttir | 08. maí 2019 - kl. 11:30
Lög sem banna plastburðarpoka

Alþingi samþykkti í fyrradag breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem meðal annars kveða á um að óheimilt verði að afhenda plastburðarpoka í verslunum frá og með 1. janúar 2021. Óheimilt verður að afhenda hvers kyns burðarpoka án endurgjalds frá og með 1. september næstkomandi.

Burðarpokar úr plasti eru hvoru tveggja þykku pokarnir sem fást í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem meðal annars hefur verið hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða. Bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.

Með samþykkt laganna er fylgt eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í sátu fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember síðastliðnum og bann við burðarplastpokum var ein þeirra.

Til gamans má geta þess að árið 2017 hófst verkefnið „Plastpokalaust samfélag á Blönduósi.“ Verkefnið gengur út á það að hægt er að fá lánaða fjölnota poka í Kjörbúðinni á Blönduósi ef pokinn gleymist heima. Lögð er áhersla á að pokarnir skili sér aftur í búðina í næstu búðaferð eða jafnvel þarnæstu svo að hringrásin virki sem best. Frumkvæðið kom frá nokkrum áhugasömum konum sem hittust einu sinni í viku og saumuðu fjölnota poka. Verkefnið fékk strax mikinn stuðning frá bæjarbúum og sveitarstjórn sem og við saumaskapinn og að láta efni í pokana. Síðan verkefnið hófst hafa verið saumaðir yfir tvö þúsund pokar.

Þá er einnig rétt að geta þess að árið 2015 lögðu umhverfisnefnd grænfánaverkefnis Grunnskóla Húnaþings vestra, umhverfisstjóri Húnaþings vestra og nemendur grunnskólans sitt af mörkum í baráttunni við plastið og gáfu fjölnota burðarpoka inn á öll heimili í Húnaþingi vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga