Stjórn sambandsins
Stjórn sambandsins
Fréttir | 08. maí 2019 - kl. 22:57
Aðalfundur Sambands austur-húnvetnskra kvenna
Samvinna - Virðing - Kærleikur

Aðalfundur SAHK – Sambands austur-húnvetnskra kvenna var haldinn í sal Samstöðu að Þverbraut 1, Blönduósi, fimmtudaginn 2. maí. Stjórn sambandsins þakkar Stéttarfélaginu Samstöðu fyrir veitta fundaraðstöðu. Kvenfélögin í Sambandinu eru sex og kvenfélagskonur eru 78. Starfsemi kvenfélaganna er mikilvæg í samfélaginu og fjölbreytt. Kvenfélögin eru góður félagsskapur sem hlúir að líknarmálum, menningarmálum, menntamálum, og umhverfismálum, fyrst og fremst í heimahéraði. Árið 2018 námu gjafir/styrkir kvenfélaganna í SAHK samtals um 1,5 milljónir króna.

Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands ávarpaði fundinn og færði Sambandinu gjöf í tilefni 90 ára afmælisins, skrautritaða gestabók myndskreytta af Lindu Ólafsdóttur listakonu. Guðrún Sigurjónsdóttir skýrði frá starfsemi Heimilisiðnaðarsafnsins en hún situr í stjórn þess fyrir hönd Sambandsins ásamt Elínu Sigurðardóttur formanni og forstöðukonu.

Orlofsnefnd húsmæðra í Austur-Húnavatnssýslu starfar á vegum SAHK og fór Linda Björk Ævarsdóttir fráfarandi formaður yfir störf nefndarinnar en orlofsferð var farin til Berlínar í apríl sl. og fóru 29 konur úr Austur-Húnavatnssýslu í ferðina sem heppnaðist afar vel.

Á aðalfundinum afhenti stjórn Sambandsins formanni stjórnar Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, Sigurlaugu Hermannsdóttur, peningagjöf að fjárhæð 725 þúsund krónur til kaupa á baðlyftu fyrir heilbrigðisstofnunina.

Árið 2018 átti Sambandið 90 ára afmæli og var ákveðið að halda fjáröflunarsamkomu í tilefni afmælisins og að allur ágóði skyldi renna til Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, til kaupa á baðlyftu. Hauststarf stjórnar var því helgað undirbúningi á skemmtikvöldi SAHK sem haldið var þann 29. nóvember í Félagsheimilinu á Blönduósi.Veðurguðirnir sáu til þess að aðalskemmtikraftarnir forfölluðust á síðustu stundu en góður heimamaður hljóp í skarðið fyrirvaralaust og bjargaði kvöldinu þar sem óhægt var um vik að fresta samkomunni og var hún vel sótt og heppnaðist með ágætum.

Á skemmtikvöldinu var boðið upp á léttar veitingar að hætti kvenfélagskvenna, happdrætti, söngatriði hjónadúetts Hugrúnar og Jonna, Siggu og Dóra og erindi Magnúsar Ólafssonar um aftökur á Þrístöpum og atburði tengda þeim. Leitað var til fjölmargra aðila heima í héraði til styrktar samkomunni. Vill sambandið nota tækifærið og færa kærar þakkir til þeirra fjölmörgu aðila sem styrktu þetta góða málefni með margvíslegum hætti svo sem með húsnæði, happdrættisvinningum, veitingum og  fjárframlögum að ógleymdum skemmtikröftunum okkar heima í héraði sem nærðu okkur með fallegri tónlist og fróðlegu efni á léttum nótum.

Það var frábært að vinna að þessu með kvenfélögunum ásamt því að finna hvað samfélagið allt var velviljað og lagði sitt af mörkum til verkefnisins, einstaklingar, rekstraraðilar og sveitarfélögin.

Stjórn SAHK skipa Þóra Sverrisdóttir formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir varaformaður, Sigríður Eddý Jóhannesdóttir ritari, Guðbjörg Haraldsdóttir vararitari, Ingibjörg Sigurðardóttir gjaldkeri og Guðný Nanna Þórisdóttir varagjaldkeri.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga