Fréttir | 14. maí 2019 - kl. 20:30
Berrasaðir bændur í Húnaþingi

Sauðfjárbændur í Austur-Húnavatnssýslu hafa vakið athygli á Facebook, og reyndar víðar, fyrir nektarmyndir af sjálfum sér í sauðburði. Morgunútvarp Rásar 2 komst á snoðir um málið og hafði samband við Jón Kristófer Sigmarsson, bónda á Hæli í Húnavatnshreppi, til að fræðast betur um tilefnið. Jón Kristófer sagði að allt hafi þetta byrjað í léttu gríni á næturvakt í fjárhúsunum hjá Jóni Gíslasyni, bónda á Hofi í Vatnsdal, sem ákvað að skora á annan bónda og þannig hafi grínið undið upp á sig.

Fram kom hjá Jóni Kristófer að takmarka þyrfti þátttökuna í gríninu við tólf, þar sem myndirnar eigi að notast í dagatal sem koma á út fyrir næsta ár. Dagatalið verði svo líklega selt til styrktar góðu málefni, eins og að fara á leik í enska boltanum, samkvæmt Jóni Kristófer í skemmtilegu viðtali á Rás 2 í morgun. Hann lofaði jafnframt að dagatalið myndi koma út fyrir næstu jól.

Viðtalið við Jón Kristófer í Morgunútvarpi Rásar 2 má heyra hér.

Myndirnar í samsettu myndinn sem hér fylgir eru af Facebook síðu Morgunútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga