Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 15. maí 2019 - kl. 09:26
Flóttafólk komið til Hvammstanga

Tuttugu og þrír flóttamenn komu til landsins í gær, ungt fjölskyldufólk frá Sýrlandi, sem dvalið hefur í Líbanon undanfarin ár við misjafnar aðstæður. Fólkið fór til Hvammstanga í gærkvöldi þar sem það mun setjast að. Annar fimmtán manna hópur, börn og fullorðnir koma til Blönduóss í kvöld og mun hann setjast þar að. Innan skamms er svo von á sex manna fjölskyldu til viðbótar og mun hún setjast að á Blönduósi einnig. Ein fjölskylda úr þessum hópum flóttafólks sem kemur til landsins mun setjast að í Árborg þar sem hún hefur tengsl, að því er fram kemur í frétt í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu er rætt við Lindu Rós Alfreðsdóttur, sérfræðing í málefnum flóttamanna hjá félagsmálaráðuneytinu. Fram kemur að alls sé von á 49 kvótaflóttamönnum að þessu sinni til landsins og um 75 manns á árinu. Linda Rós segir að fólkið hafi dvalið í Líbanon undanfarin ár við misjafnar aðstæður. Landið sé lítið og þar búi um sex milljónir manna, þar af séu um 20% flóttamenn. Hún segir að Líbanir leyfi ekki flóttamannabúið þannig að flóttamennirnir búi margir við bágar aðstæður. Linda Rós segir að flóttamennirnir komi í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og að aðdragandi að komu þeirra hafi verið langur. „Við gerum samninga við sveitarfélög og Rauða krossinn um að taka á móti fólkinu. Það er tryggt að það fái húsnæði, grunnhúsbúnað og annað slíkt. Sveitarfélögin hafa gert þetta vel og það er óhætt að segja að þetta hafi gengið vel á Íslandi,“ segir Linda Rós í samtali við Morgunblaðið í dag.

Frá því að Flóttamannaráð var sett á stofn 1995 og til ársloka í fyrra komu 500 flóttamenn til Íslands. Þar af komu 52 árið 2018, 47 árið 2017 og 56 árið 2016.

Þá má geta þess að nýir íbúar frá Sýrlandi verða boðnir velkomnir í Húnaþing vestra í Félagsheimilinu á Hvammstanga sunnudaginn 19. maí frá klukkan 17:00- 18:00. Íbúar eru hvattir til að koma og bjóða þá velkomna. Boðið verður upp á kaffisopa, ávarp og tónlistaratriði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga