Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 16. maí 2019 - kl. 12:11
Fimmtán nýir íbúar til Blönduóss

Fimmtán sýrlenskir flóttamenn komu til Blönduóss í gærkvöldi þar sem þeir munu eignast heimili. Á fréttavefnum visir.is ná lesa viðtal við Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur, mannfræðing og verkefnastjóra hjá Rauða krossinum, en hún var á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll í gærkvöldi að ná í hópinn þegar viðtalið var tekið. Með henni í för voru Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri Blönduósbæjar, Þórunn Ólafsdóttir, sem ráðin var verkefnastjóri bæjarins vegna komu flóttamannanna, og Kinan Kadoni, túlkur og menningarmiðlari. Hún segir að á mánudaginn verði stór matarveisla haldin fyrir flóttafólkið, sjálfboðaliða og bæjarbúa.

„Bærinn sér um veisluna og fékk sýrlenskan kokk til að sjá um hana. Nú er föstumánuðurinn ramadan hjá aröbunum og hún er þeim svo þýðingarmikil, þeir eru vanir að vera með fjölskyldunni sinni þá. Þetta er eins og fyrir okkur að mæta einhvers staðar á aðfangadagskvöld. Rauði krossinn útbjó gjafakörfur til að gefa fjölskyldunum, með alls konar mat sem fólkið kannast við og er úr arabísku búðunum, Istanbúl Market og Jerusalem Market.“

Viðtalið við Guðrúnu Margréti í heild sinni má lesa hér.

Innan skamms er svo von á sex manna fjölskyldu til viðbótar sem setjast mun að á Blönduósi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga