Við Vatnsdalsá
Við Vatnsdalsá
Fréttir | 16. maí 2019 - kl. 14:50
Styttist í laxveiðitímabilið

Laxveiðitímabilið hefst um næstu mánaðamót og eru veiðimenn orðnir spenntir fyrir komandi laxveiðisumri. Blanda opnar miðvikudaginn 5. júní, fyrst húnvetnskra laxveiðiáa. Aðrar helstu laxveiðiár í húnavatnssýslum opna svo hver á fætur annarri í júní. Líklegt er að Miðfjarðará opni 15. júní, Laxá á Ásum 18. júní og Vatnsdalsá og Víðidalsá 20. júní.

Laxveiði í húnvetnsku laxveiðiánum hefur oft verið betri heldur en í fyrra. Smálaxinn virtist ekki hafa skilað sér í því magni sem menn vonuðust. Alls veiddust 5.919 laxar í þeim sjö ám sem eru á lista Landsambands veiðifélaga yfir 75 aflahæstu laxveiðiár landsins. Árnar eru Blanda, Svartá, Laxá á Ásum, Vatnsdalsá, Víðidalsá, Miðfjarðará og Hrútafjarðará. Laxveiðin í fyrra skilaði 2.395 færri löxum  en sumarið 2017 og 4.333 færri löxum en sumarið 2016. Metárið 2015 skiluðu þessar sjö laxveiðiár alls 16.914 löxum á land.

Flestir laxar komu á land í fyrra úr Miðfjarðará eða 2.719 og endaði áin í þriðja sæti yfir aflahæstu ár landsins. Blanda komst ekki inn á topp tíu á listanum eins og hún hefur verið undanfarin ár en hún skilaði 870 löxum að þessu sinni sem er 40% minna en í fyrra þegar 1.433 laxar veiddust í ánni. Laxá á Ásum náði ekki þúsund laxa markinu í fyrra eins og árið þar áður en lokatölur urðu 702 laxar samanborið við 1.108 laxa árið 2017. Víðidalsá endaði í 588 löxum í fyrra en árið 2017 veiddust 781 laxar. Vatnsdalá endaði í 551 löxum en skilaði 714 löxum árið 2017. Hrútafjarðará endaði í 360 löxum miðað við 384 laxa 2017 og Svartá endaði í 129 löxum en árið 2017 veiddust 128 laxar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga