Frá undirrituninni. Ljósm: stjornarradid.is
Frá undirrituninni. Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 17. maí 2019 - kl. 09:42
Skrifað undir samning við Húnaþing vestra um móttöku flóttafólks

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í gær samning við Húnaþing vestra vegna móttöku flóttafólks frá Sýrlandi. Hópur sýrlenskra kvótaflóttamanna kom til landsins í vikunni samtals 43 einstaklingar. Helmingur þeirra er nú kominn til Hvammstanga. Fólkið er hingað komið fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Undirbúningur vegna komu fólksins hefur staðið yfir síðustu mánuði og hefur það sótt námskeið um íslenskt samfélag, réttindi og skyldur í Beirút. Námskeiðið héldu íslensk stjórnvöld í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) og er liður í því að undirbúa fólkið undir það að flytjast til Íslands.

„Íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti sýrlensku flóttafólki frá árinu 2015 og hefur umfangsmikil reynsla og þekking myndast hérlendis á móttöku þeirra í gegnum árin. Ég er þess fullviss að bæði á Hvammstanga og Blönduósi verði þeim vel tekið og veit að margir hafa lagt hönd á plóg til þess að gera komu þeirra sem ánægjulegasta," sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga