Fréttir | 20. maí 2019 - kl. 10:38
Tap í fyrsta leik

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar spilaði sinn fyrsta leik í B-riðli Íslandsmótsins í knattspyrnu í 4. deild um helgina. Mótherjarnir voru Knattspyrnufélag Breiðholts í Reykjavík og fór leikurinn fram á Leiknisvelli. Heimamenn komust yfir á sextándu mínútu og bættu öðru marki við áður en hálfleikur skall á. Staðan 2-0 í hálfleik KB í vil, nokkuð verðskuldað. Seinni hálfleikurinn var mun jafnari og náði Ingvi Rafn Ingvarsson að minnka muninn á 64. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar bættu Breiðholtsmenn við sínu þriðja marki og þannig endaði leikurinn, 3-1 fyrir KB.

Næsti leikur liðsins verður laugardaginn 25. maí og fer hann einnig fram á Leiknisvelli klukkan 16. Mótherjarnir eru FC Afríka en þeir töpuðu sínum fyrsta leik á mótinu 7-0 gegn Hvíta riddaranum og sitja því á botni riðilsins á lélegu markahlutfalli.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga