Gagnaverið á Blönduósi. Skjáskot úr sjónvarpsfréttum RÚV.
Gagnaverið á Blönduósi. Skjáskot úr sjónvarpsfréttum RÚV.
Fréttir | 22. maí 2019 - kl. 09:58
Gagnaverið tekið formlega í notkun

Gagnaver Etix á Blönduósi var formlega tekið í notkun í gær að viðstöddu fjölmenni. Fyrsta skóflustungan var tekin 23. maí í fyrra og hófst starfsemi í fyrsta húsinu af sjö þremur mánuðum síðar. Húsin eru alls um 4000 fermetrar á gagnaverssvæðinu í Fálkagerði við Svínvetningabraut rétt fyrir utan Blönduós og samtals eru 25 þúsund tölvuþjónar í gagnaverinu. Fjallað var um málið í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og rætt við Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóra Etix á Íslandi og Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra Blönduósbæjar.

Björn sagði m.a. að frekari uppbygging væri fyrirhuguð á Blönduósi. „Við stefnum á að vera með fjölbreyttari gagnageymslu til dæmis með þessu, nú erum við í rauninni eingöngu með þunga reikninga. Þannig að flóran á eftir að aukast hjá okkur,“ sagði Björn en fram kom að megnið af starfsemi gagnaversins í dag væri fjárhagsmál. Einnig kom fram í máli Björns að í dag starfi fimmtán manns hjá Etix á Íslandi og þar af væru tíu starfsmenn á Blönduósi.    

Valdimar sagðist fagna þessari nýsköpun á svæðið sem hefði átt undir högg að sækja. „Þannig að þetta hefur haft mjög góð áhrif á fasteignaverð, íbúðir eru farnar að byggjast, fólk er að flytja í bæinn þannig að það er margt jákvætt við þetta. Þó svo að við lítum á þetta sem fyrsta áfanga,“ sagði Valdimar í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gær.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga