Sumarleikhús æskunnar. Ljósm: sumarleikhus.com.
Sumarleikhús æskunnar. Ljósm: sumarleikhus.com.
Fréttir | 26. maí 2019 - kl. 20:03
Sumarleikhús æskunnar í Húnaþingi vestra fær styrk úr Barnamenningarsjóði

Barnamenningarsjóður Íslands úthlutaði í dag, á degi barnsins, styrkjum fyrir árið 2019 við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Viðstaddar voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Samþykkt var að veita 36 styrki að heildarupphæð 97,5 milljónir króna. Handbendi Brúðuleikhús ehf. á Hvammstanga hlaut 1,5 milljón krónur í styrk fyrir verkefnið Sumarleikhús æskunnar í Húnaþingi vestra.

Þá fékk Sauðfjársetrið á Ströndum ses. 2 milljónir í styrk fyrir verkefnið Náttúrubarnaskólinn á Ströndum og Strandagaldur ses. fékk 1,3 milljónir fyrir verkefnið Galdrar og þjóðsögur á Ströndum.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins í samræmi við ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018 og er átaksverkefni til fimm ára. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Alla þá sem hlutu styrki úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2019 má sjá hér.

Fræðast má um Sumarleikhús æskunnar í Húnaþingi vestra hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga