Fréttir | 07. júní 2019 - kl. 15:23
Húnavaka 2019 er komin út

Húnavaka, héraðsrit Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, er komið út. Efni þessa 59. árgangs ritsins er fjölbreytt að vanda en þar má finna ýmsan fróðleik um málefni fólks og fyrirtækja í Austur-Húnavatnssýslu. Húnavökunni er dreift til áskrifenda en ritið er einnig til sölu í verslunum á svæðinu. Þá er hægt að panta hana með því að senda tölvupóst á usah540@simnet.is. Útgáfan er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Ritstjóri Húnavökunnar er Ingibergur Guðmundsson og segir hann að vel hafi gengið að safna efni enda eigi ritið marga velunnara sem leggja því til ýmiss konar fróðleik. Í ritinu er m.a. viðtal við Jóhönnu Pálmadóttur á Akri og Sverrir Haukur Halldórsson segir frá veru sinni á varðskipum í þorskastríðinu. Grein er um Blöndu frá upptökum til ósa eftir Rósberg G. Snædal, Anna Hinriksdóttir skrifar um ástarbréf afa síns, Bjarna Jónasson í Blöndudalshólum, til ömmu sinnar og Dómhildur Jónsdóttir segir frá fyrstu kynnum sínum af verðandi eiginmanni, sr. Pétri Þ. Ingjaldssyni.

Fjöldi annarra greina og frásagna eru einnig í ritinu, ásamt margvíslegum kveðskap, minningargreinum, fréttum og fl.

Húnavaka 2019 er 280 blaðsíður og kostar 3.000 krónur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New