Fréttir | 12. júní 2019 - kl. 19:22
Leikflokkur Húnaþings vestra sýnir Hárið í Þjóðleikhúsinu

Leikflokkur Húnaþings vestra sýnir á föstudaginn og laugardaginn söngleikinn Hárið í Þjóðleikhúsinu. Sýningin var valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins 2019 af Bandalagi íslenskra leikfélaga. Söngleikurinn fékk frábærar viðtökur í Húnaþingi vestra en hann var sýndur á Hvammstanga dagana 17.-22. apríl. Uppselt var á allar fimm sýningarnar sem auglýstar voru þannig að halda þurfti aukasýningu. Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson og koma um 38 manns að sýningunni og 26 koma fram í henni.

Þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár. Í verðlaun fékk leikflokkurinn að sýna Hárið í Þjóðleikhúsinu. Sýningarnar tvær verða föstudaginn 14. júní klukkan 19:30 og laugardaginn 15. júní klukkan 19:30. Hægt er að kaupa miða hér.

Í áliti dómnefndar segir meðal annars:

“Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu eftir Gerome Ragni og James Rado í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Um efni Hársins þarf ekki að fjölyrða. Sýningin er hins vegar unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga