Fréttir | 13. júní 2019 - kl. 16:34
Þremur styrkjum úthlutað úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra

Sveitarstjórn Húnaþing vestra hefur samþykkt að úthluta þremur styrkjum úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra. Auglýst var eftir umsóknum í síðasta mánuði og rann umsóknarfrestur út 31. maí. Fjórar umsóknir bárust. Kristólína fékk 600 þúsund króna styrk vegna vöruþróunar og markaðssetningar á afþreyingavörumerkinu Ráðgátur. Hestatannlæknirinn ehf. fékk 600 þúsund króna styrk vegna breytingar á atvinnuhúsnæði og Seal Travel fékk 300 þúsund króna styrk vegna markaðssóknar fyrirtækisins.

Markmið Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs Húnaþings vestra er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í sveitarfélaginu. Honum er ætlað að styðja við frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu. Áherslur sjóðsins lúta að verkefnum sem stuðlað geta að auknum umsvifum, betri afkomu og rekstri fyrirtækja og þróun og nýsköpun í atvinnulífi í Húnaþingi vestra. Styrkir sem veittir eru úr sjóðnum eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga