Frá Húnavöllum
Frá Húnavöllum
Fréttir | 14. júní 2019 - kl. 14:53
Ársreikningur Húnavatnshrepps samþykktur

Ársreikningur Húnavatnshrepps fyrir árið 2018 var samþykktur á fundi sveitarstjórnar á miðvikudaginn. Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um rúmlega eina milljón króna samanborið við 2,7 milljón króna jákvæða afkomu árið 2017. Eigið fé sveitarfélagsins var í árslok 408 milljónir króna og handbært fé nam 7,7 milljónum. Eiginfjárhlutfall var 60,9%. Fjárfestingar í fyrra námu 52 milljónum og var stærsta einstaka fjárfesting í viðhaldsverkefni á húsnæði grunnskólans og íbúðarhúsnæðis á Húnavöllum.

Lántökur samstæðunnar voru 30 milljónir á árinu og langtímaskuldir námu 149 milljónum í árslok. Skuldaviðmið A hluta var 0% í árslok samanborið við 6% árið 2017 og skuldaviðmið B hluta var 37% samanborið við 55% árið 2017. Miðað er við að hlutfallið sé ekki hærra en 150%. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar.

Þar kemur einnig fram að rekstur B hluta fyrirtækja á árinu 2018 hafi verið neikvæður um rúmar 16 milljónir króna. Þar af var neikvæð rekstrarniðurstaða, að fjárhæð 4,4 milljónir vegna Auðkúluheiðar ehf. og 10,7 milljónir vegna Húnanets ehf. Í fundargerðinni segir.“Það er því ljóst að staða sveitarfélagsins er í jafnvægi þrátt fyrir stórauknar framkvæmdir, gott þjónustustig í sveitarfélaginu sem og aukinn kostnað sveitarfélaga almennt. Heildar niðurstaða B hluta félaga veldur nokkrum vonbrigðum. Ársreikningur fyrir árið 2018 gefur góða mynd af rekstri sveitarfélagsins og þeim mikla kostnaði við framkvæmdir vegna ljósleiðara og viðhald fasteigna sveitarfélagsins.

E-listinn sat hjá við afgreiðslu ársreikningsins
Fulltrúar E-listans í sveitarstjórn vöktu athygli á slæmri fjárhags- og rekstrarniðurstöðu Húnanets. Heildarskuldir félagsins væru 131,8 milljónir og þar af væru 26,5 milljónir í skuld við Húnavatnshrepps, auk þess væri rekstrarhalli ársins í fyrra 10,7 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir 677 þúsund krónum í halla. Fulltrúar E-listans gerðu einnig athugasemd við orð oddvita þegar fjárhagsáætlun 2019 var samþykkt í desember. Hún hafi verið samþykkt á þeim forsendum að eiginfjárstaða sveitarfélagsins væri sterk. Nú lægi fyrir ársreikningur 2018 og að framúrkeyrslan væri um 60 milljónir eða um 16% umfram fjárhagsáætlun með viðaukum. Fannst fulltrúum E-lista þetta óábyrg fjármálastjórnun og sátu þeir því hjá við afgreiðslu ársreikningsins.

Meirihlutinn svaraði þessu með þeim orðum að vegna fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunar 2019 væri rétt að taka fram að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu væru í sameiningarferli. Því hafi meirihlutinn talið eðlilegt að stórauka viðhald á eignum sveitarfélagsins. Meirihlutinn lagið svo fram drög að breytingum á fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps vegna ársins 2019, til að mæta rekstrarniðurstöðu ársins 2018, þar sem seinkun hafi orðið á sameiningarferli sveitarfélaga.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga