Nöldrið | 15. júní 2019 - kl. 10:08
Af holum og blikkandi ljósum

Varúð. Nú verður nöldrað af kraftir.
Fyrir um tveimur mánuðum var grafin stór holta á Melabrautina við gatnamót Holtabrautar. Hún var vel merkt, trúlega eins og reglur gera rá fyrir og girt í kringum hana og þarna er hún enn, opin og óhreyfð, þó sést hafi til bæjarstarfsmanna fara ofan í holuna eitthvað að sýsla, en greinilegt er að þarna á hún að vera eitthvað fram á sumarið, eða um óákveðinn tíma.

Ég ætla ekki að segja að stór hætta stafi af þessu jarðraski, þó það sé við fjölfarna gangbraut, sem aðallega skólabörn nota á leið sinni í skólann, en þar sem engin er skólakennslan yfir sumarið þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Mér finnst þó  merkilegt ef enginn sem leið hefur átt um þessar slóðir hafi “dottið” ofan í holuna, en víst er að sá hinn sami kæmist ekki hjálparlaust upp, svo djúp er holan. En viti menn. Nú tæpum tveimur mánuðum eftir að holan var grafin mæta hraustir menn og moka ofan í hana og er þar með lokið sögunni um holuna stóru sem kannski má segja að hafi aldrei verið nema ekki frétt.

Ég fullyrði að hefði ég hafist handa seinnipartinn í apríl í vor að mála vinnuherbergi frúarinnar og hefði rutt húsgögnum og dóti út í enda herbergisins, byrjað svo á einhverju allt öðru verki t.d. úti í bílskúr og allt væri við það sama í frúarherberginu eftir tvo mánuði væri ég ekki í góðum málum.

Hafi bæjarstarfsmenn svona gaman af að grafa holur í jörðina ættu þeir að drífa sig í að stinga upp kerfilinn í bæjarlandinu því það er víst það eina sem dugar á hann. Taka sér Mývetninga til fyrirmyndar, sem að vísu fengu liðsstyrk bandarískra sjálfboðsliða við eyðinguna.

Það er lítið gagn að blikkljósinu við þjóðveginn í Ámundakinninni eins og svo oft áður. Undarlegt hversu illi gengur að láta það þjóna tilgangi sínum. Það hefur ekki blikkað í marga mánuði og gefið vegfarendum til kynna að ökuhraðinn sé 50 km/klst. gegnum bæinn, enda hraðinn ógnvænlegur á sumum bílum sem aka í gegn. Við þessa götu eru veitinga- og þjónustuhús í röðum. Bæði ferðafólk og heimamenn eiga þangað erindi og svo stórhættulegi afleggjarinn niður að Glaðheimum. Það er því til skammar að Vegagerðin skuli ekki sjá sóma sinn í því að laga þetta, þannig að ökuhraðinn gegnum bæinn minnki.

Það er sorglegt, en veldur manni svo sem engri undrun hversu lítið, ef þá nokkuð var fjallað í fjölmiðlum um Prjónagleðina sem hér er nýlega afstaðin og sótt var af fólki, aðallega konum, víðsvegar að af landinu og frá útlöndum og rómuð var af öllum sem hana sóttu og tjáð hafa sig á hinum ýmsu netmiðlum. Ég segi að við þurfum ekki að vera hissa á þessari þögn fjölmiðla. Þetta var jú að mestu kvennahátíð, hún var haldin hér á Norðvesturhorninu sem lítið er fjallað um svona yfirleitt, það er stundum eins og við tilheyrum engum landshluta og svo vorum við svo óheppin að veðrið lék við fólk á Suðvesturhorninu þessa daga og þá er það vaninn að lítið  kemst að í fréttum fjölmiðla annað en sólarfréttir úr Reykjavík. En þetta minnir okkur á  hvað nauðsynlegt er að hér sé einhver sem sér um að flytja fréttir af svæðinu og þó ég taki það sem nærtækast er, Prjónagleðina, þá gerist margt áhugavert í okkar ranni sem segja mætti frá. Hin annars ágæta sjónvarpsstöð N4 hefur valdið mér vonbrigðum upp á síðkastið með áhugaleysi sínu um öflun frétta frá Norðurlandi öllu. Hún hefur lítið farið yfir Vatnsskarð eða Þverárfjall í fréttaöflun undanfarið. Vonandi verður breyting á.

Ef þessir sólríku fallegu sumardagar sem við höfum notið undanfarið er sýnishorn af því sem koma skal, þurfum við engu að kvíða. Hvað sem verður skulum við njóta sumarsins því það er sko rétt að byrja.

Kæru vinir, ég kveð að sinni.

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga