Fréttir | 15. júní 2019 - kl. 09:10
Náðu í stig gegn toppliðinu

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar gerði jafntefli við Hvíta riddarann í gærkvöldi í fimmtu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu 4. deild B-riðli. Leikurinn átti að fara fram á Blönduósvelli en var færðu yfir til Mosfellsbæjar. Leikmenn Kormáks/Hvatar vissu að þeir áttu erfiðan leik fyrir höndum enda situr Hvíti riddarinn á toppi riðilsins og hefur ekki tapað stigi, þangað til í gærkvöldi. Staðan var vænleg fyrir Kormák/Hvöt í hálfleik en þá hafði Ingvi Rafn Ingvarsson skorað eina mark leiksins, 0-1 í hálfleik.

Á 57. mínútu náði liðsmenn Hvíta riddarans að jafna leikinn og það sem eftir lifði leiks náði hvorugt lið að skora. Liðin skildu því jöfn og fengu sitthvort stigið. Með jafnteflinu datt Kormákur/Hvöt úr þriðja sæti riðilsins niður í það fimmta. Hvíti riddarinn er enn á toppnum með 13 stig, eins og Snæfell sem einnig er með 13 stig en lakara markahlutfall. Það stefnir í æsispennandi mót. Næsti leikur Kormáks/Hvatar fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði föstudaginn 21. júní, gegn ÍH.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga