Fréttir | 15. júní 2019 - kl. 10:47
Húnavakan nálgast

Dagana 18.-21. júlí verður bæjarhátíðin og fjölskylduskemmtunin Húnavaka haldin á Blönduósi. Hátíðin hét áður Matur og menning og var fyrst haldin árið 2003. Árið 2006 var ákveðið að breyta nafni hátíðarinnar og endurvekja hið góða og gilda nafn Húnavaka sem áratugum saman var fastur liður í menningarlíf Húnvetninga. Byrjað er að kynna dagskrána og óhætt að segja að hún er mjög metnaðarfull og glæsileg.

Fjöldi landsfrægra skemmtikrafta koma fram á hátíðinni, m.a. Friðrik Dór, Helgi Björns, Daði Freyr og Hildur auk hljómsveitanna Á móti sól og Skítamórals og leikhópnum Lottu. Á hátíðinni geta allir fundir eitthvað við sitt hæfi en í boði verður danskennsla, fjallahjólaferð, gönguferð, ísbjörn til sýnis, söguganga um gamla bæinn, jóga, sápurennibraut, ærslabelgur, hoppukastali, aparóla, risapúsl, prjónaganga, lopapeysusýning, útimarkaður, tækjakynning, golfmót, útsýnisflug og margt fleira.

Um að gera að taka dagana frá og mæta á Blönduós, þar sem sólin ávallt skín og lognið er alsráðandi.

Jón Þór Eyþórsson er viðburðarstjóri fyrir Húnavöku 2019.

Sjá nánar á Facebook síðu Húnavöku.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga