Sundlaugin á Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Sundlaugin á Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 19. júní 2019 - kl. 16:15
Góð aðsókn í sundlaugina á Blönduósi

Aðsókn í sundlaugina á Blönduósi hefur verið góð í sumar, líkt og síðustu ár. Í tilkynningu frá Íþróttamiðstöðinni kemur fram að það sem af er ári hafa 17.141 sundlaugargestir komið í laugina en á sama tíma í fyrra voru þeir 15.180 og nemur aukningin um 13% milli ára. Ef skoðað er tveggja ára tímabil er aukningin um 18% en á sama tíma árið 2017 voru sundlaugargestir 14.530 talsins.

Frábær sundlaug og umhverfisvæn
Sundlaugin á Blönduósi er tilvalin fyrir alla og draumur fyrir barnafólk. Hún er 25 x 8,5 metrar að stærð, tveir heitir pottar, gufa, vaðlaug, tvö ísböð, tvær stórar rennibrautir og mikið af skemmtilegum leiktækjum og leikföngum.

Umhverfisvænar lausnir eru notaðar í sundlauginni. Klór er framleiddur á staðnum og er matarsalt eina afurðin sem þarf í framleiðsluna ásamt rafmagni og vatni. Framleitt er klórgas og það sett beint inn í sótthreinsun auk þess sem kerfið framleiðir klórvatn sem notað er til að mæta dagssveiflum í notkun. Tækið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Helstu kostir nýja kerfisins eru enginn flutningur á milli staða á hættulegum efnum, klórlykt minnkar, sviði í augum minnkar verulega, húðerting minnkar, vistvænt fyrir starfsfólk og stuðlar að umhverfisvænu umhverfi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga