Fréttir | 07. júlí 2019 - kl. 20:51
Öruggur sigur á Blönduósvelli

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar átti ekki í vandræðum með lið KB – Knattspyrnulið Breiðholts í gær á Blönduósvelli þegar leikið var í 8. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild B-riðli. Leikurinn endaði 5-0 og skoraði Diego Moreno Minguez þrjú mörk og Bjarki Már Árnason tvö. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Fyrsta mark leiksins kom strax á 12. mínútu og eftir tuttugu mínútna leik var staðan orðin 2-0. Á 23. mínútu var þeim Sigurði Bjarna Aadnegard, leikmanni Kormáks/Hvatar og Sudip Bohora leikmanni KB vikið af velli og léku því bæði lið einum leikmanni færri sem eftir lifði leiks.

Þriðja mark Kormáks/Hvatar kom á 26. mínútur, það fjórða á 28. mínútu og síðasta mark leiksins kom á 33. mínútu. Öruggur sigur hjá Kormáki/Hvöt og er liðið áfram í þriðja sæti riðilsins með 17, tveimur stigum á eftir Hvíta riddaranum sem er í öðru sæti og fimm stigum á eftir Snæfelli sem er á toppi riðilsins.

Næsti leikur fer fram á KR-vellinum laugardaginn 13. júlí klukkan 16 gegn KM-Reykjavík.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga