Frá Maríudögum. Ljósm: Feykir.is.
Frá Maríudögum. Ljósm: Feykir.is.
Fréttir | 08. júlí 2019 - kl. 10:15
Góð aðsókn á Maríudögum

Liðlega 200 manns sóttu Maríudaga sem haldnir voru í ellefta sinni í Vesturhópi dagana 29. og 30. júní síðastliðinn en þeir eru haldnir til minningar um Maríu Hjaltadóttur, fyrrum húsmóður á Hvoli. Að venju var hestamannamessa að Breiðabólstað á sunnudeginum og reið sóknarpresturinn sr. Magnús Magnússon, til kirkju ásamt nokkrum kirkjugestum. Kirkjusókn var góð, setið í flestum bekkjum þó ekki hafi kirkjan verið full.

Á Feykir.is segir að aðstandendur Maríudaga hafi verið ánægðir með þátttökuna þetta árið en alltaf spili veðrið sína rullu og að þessu sinni hafi verið fremur kalt og talsverður vindur, sem dragi úr aðsókn.

Það er Gréta Jósefsdóttir á Litla-Ósi sem fjallar um Maríudagana á vef Feykis og má lesa nánar um þá hér.

Fram kemur að líklega sé þetta í síðasta sinn að Maríudagar verða haldnir. „Aðstandendur Maríudaga þakka öllum þeim sem lagt hafa lið með einum eða öðrum hætti í þessi ellefu ár og ljóst er að við kveðjum þetta verkefni með nokkrum trega, en allt hefur sinn tíma,“ segir í lokaorðum Grétu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New