Hrútey
Hrútey
Fréttir | 10. júlí 2019 - kl. 08:40
Náttúruyogastund í Hrútey á Húnavöku

Náttúruyogastund í Hrútey er einn viðburður Húnavöku sem haldin verður dagana 18.-21. júlí næstkomandi. Hrútey er náttúruperla í miðri Blöndu rétt fyrir ofan Blöndubrú og er þekkt fyrir mikið fuglalíf og náttúrufegurð. Yogakennarinn og hljóðheilarinn Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir í Ómi Yoga & Gongsetri á Akureyri leiðir stundina. Hún hefur leitt samskonar viðburði í Viðey og kennt yoga og hugleiðslu um árabil hérlendis og erlendis. 

„Við komum okkur fyrir á skjólsælum stað, gerum öndunaræfingar, yogastöður og teygjur, gerum núvitundarhugleiðslu og leggjumst svo niður í slökun. Spilað verður á 32" gong og nokkrar koparsöngskálar frá Indlandi og Nepal í slökuninni,“ segir Arnbjörg Kristín er Húnahornið forvitnaðist um hvað færi fram á þessum viðburði. Hún segir einnig að gott sé að koma með tvö teppi, eitt til að liggja á og annað til að breiða yfir sig. Einnig sé líka hægt að leggjast í grasið og vera í þægilegum fötum sem gott er að hreyfa sig í.

Náttúruyogastundin í Hrútey er frá klukkan 17-18 laugardaginn 20. júlí.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga