Fréttir | 11. júlí 2019 - kl. 08:10
Miðfjarðará þriðja aflahæsta laxveiðiáin

Miðfjarðará hefur þokast upp fyrir Blöndu í heildarfjölda veiddra laxa það sem af er sumri og er nú þriðja aflahæsta á landsins með 202 veidda laxa. Blanda er í fjórða sæti með 175 laxa, samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 515 laxar í Miðfjarðará og 417 í Blöndu. Á þessum tölum sést að laxveiðin sem af er sumri er sérlega döpur og samanburðurinn versnar enn ef tölur frá 2017 eru bornar saman. Þá höfðu veiðst 749 laxar í Miðfjarðará 12. júlí og 517 laxar í Blöndu.

Það sem af er sumri hafa veiðst 57 laxar í Víðidalsá en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 125 laxar og 12. júlí 2017 veiddust 230 laxar. Laxá á Ásum er komin í 54 laxa en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 172 laxar í ánni og 242 laxar 12. júlí 2017. Vatnsdalsá stendur í 42 löxum samanborið við 123 í fyrra og 150 árið 2017. Í Hrútafjarðará hafa veiðst 16 laxar sem af er sumri samanborið við 45 laxa í fyrra.

Samkvæmt lista Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu ár landsins er mest veiði í Urriðafossi í Þjórsá. Þar hafa veiðst 502 laxar sem af er sumri. Eystri-Rangá er í öðru sæti með 405 laxa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga