Tryggvi og Hamur frá Hólabaki. Ljósm: Aðsend.
Tryggvi og Hamur frá Hólabaki. Ljósm: Aðsend.
Fréttir | 16. júlí 2019 - kl. 09:33
Húnvetningar í landsliði Íslands í hestaíþróttum fyrir HM í Berlín

Þrír Húnvetningar og þrír húnvetnskir hestar eru í landsliði Íslands sem keppir á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín 4.-11. ágúst næstkomandi. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari fór yfir valið á knöpum og hestum í verslun Líflands í gær. Við valið er horft til árangurs á þremur WorldRanking mótum og var Íslandamótið í byrjun þessa mánaðar síðasta móti af þeim. Einnig var horft til árangurs íslenskra knapa á stórmótum erlendis. Húnvetningarnir sem keppa fyrir Íslands hönd eru Tryggvi Björnsson, Bergþór Eggertsson og Helga Una Björnsdóttir. Húnvetnsku hestarnir eru Besti frá Upphafi, Dynfari frá Steinnesi og Hamur frá Hólabaki.

Tryggvi Björnsson og Helga Una Björnsdóttir eru með kynbótahross fyrir Ísland á mótinu og eru það hestarnir Hamur frá Hólabaki, fimm vetra og Spaði frá Barkarstöðum, sex vetra. Bergþór Eggertsson og Besti frá Upphafi keppa í 250 metra skeiði, gæðingaskeiði og 100 metra skeiði í flokki fullorðna. Hesturinn Dynfari frá Steinnesi keppir, ásamt knapa sínum í gæðingaskeiði, 100 metra skeiði og 250 metra skeiði í flokki fullorðna.

Sjá nánar valið á landsliðinu hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga