Fréttir | 19. júlí 2019 - kl. 10:22
Helgi Björns í fyrsta sinn á Húnavöku

Ár og dagar eru síðan tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson hefur spilað, skemmt og komið fram í Austur-Húnavatnssýslu en eins og allir vita er hann ókrýndur sveitaballakóngur Íslands með hljómsveitinni SSSól á sínum tíma. Nú verður loks breyting á því Helgi ætlar að troða upp á kvöldvökunni í Fagrahvammi á laugardagskvöldi Húnavöku sem nú er haldin á Blönduósi.

Rætt er við Helga í Fréttablaðinu í gær og þar segist hann vera „smá“ Húnvetningur, að hann eigi ættir að rekja til Strandamanna, Húnavatnssýslumegin. „Ætli forfeður mínir hafi ekki stolið hestum þarna einhvern tímann og riðið hratt í burtu,“ segir Helgi í viðtalinu og hlær.

Helsti segist alltaf hafa haft gaman af því að spila á Blönduósi. „Þar er kátt og jákvætt fólk þarna í Húnavatnssýslunni þannig að það er mikil tilhlökkun að koma þarna á Húnavöku í fyrsta skipti,“ segir Helgi en bæjarhátíðin Húnavaka er nú haldin í 16. sinn á Blönduósi um helgina.

Helgi kemur fram eins og áður sagði á kvöldvökunni í Fagrahvammi, annað kvöld, ásamt Gunna Helga, Daða Frey og Gunna Óla og Einar úr Skítamóral. Í viðtalinu í Fréttablaðinu segist Helgi ætla að mæta til leiks með bland í poka. „Við verðu með eitthvað nýtt og eitthvað gamalt. Það sem fólk vill heyra,“ segir hann og bendir á að á skemmtunum sem þessari hafi lítið upp á sig að vera með tilraunastarfsemi í lagavali.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga