Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 19. júlí 2019 - kl. 10:42
Spennandi dagur á Húnavöku

Það er spennandi dagur framundan á Húnavöku í dag. Sundlaugin opnaði klukkan átta í morgun og þar er hægt að fá ilmandi kaffibolla í heita pottinn á meðan börnin leika sér í rennibrautinni. Risapúsl er komið á planið við skólann og er mikil áskorun að reyna sig við stærsta púsl landsins. Í hádeginu ætlar Ístex að opna hús sitt fyrir gestum og gangandi sem geta kynnt sér nýjustu tækni í vinnslu ullar. Eftir hádegi er hægt að kíkja í grill hjá SAH-Afurðum og á opið hús hjá Vilko/Prima. Húnavökutilboð verður í boði á völdum vörum. Þá er hægt að skella sér niður á höfn og dorga.

Upplýsingamiðstöð ferðamála verður opin í allan dag fyrir þá sem vilja kynna sér allt það sem er í boði á svæðinu. Heimilisiðnaðarsafnið verður opið alla helgina en þar er sérsýningin Íslenska lopapeysan, uppruni, saga og hönnun. Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á Refli eru opin eftir hádegi sem og Hafíssetrið í Hillebrandtshúsinu en þar er hægt að sjá uppstoppaðan ísbjörn. Þá verður Ömmukaffi með Húnavökutilboð í allan dag.

Síðdegis, eða klukkan 18 mætir Leikhópurinn Lotta á Káratún og sýnir leikritið Litla hafmeyjan. Klukkan 19 verður haldið kótelettukvöld í Eyvindarstofu og 19:30 hefst tónlistarveisla í Fagrahvammi þar sem Friðrik Dór, Magni og Hildur koma fram. Dagurinn endar svo á stórdansleik í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Á móti sól.

Veðurspáin er góð fyrir helgina og því stefnir í frábæra Húnavökuhelgi á Blönduósi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga