Fréttir | 01. ágúst 2019 - kl. 08:41
Laxveiðin áfram léleg

Það er ljós að laxagöngur eru litlar í sumar og laxveiðin dræm um land allt. Húnavatnssýslurnar eru engin undantekning frá því. Laxveiði í helstu ám sýslunnar þetta sumarið er léleg. Miðfjarðará stendur sig best, er komin í 647 laxa en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 1.422 laxar. Áin er ennþá í þriðja sæti yfir aflahæstu ár landsins samkvæmt lista Landssambands veiðifélaga. Blanda er komin í 480 laxa samanborið við 771 lax í fyrra og situr hún í fimmta sæti á listanum. Laxá á Ásum er komin í 275 laxa samanborið við 402 laxa í fyrra.

Veiðst hafa 168 laxar í Víðidalsá en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 309 laxar. Vatnsdalsá er þar rétt fyrir aftan með 165 laxa samanborið við 244 laxa í fyrra. Í Hrútafjarðará hafa veiðst 102 laxar samanborið við 202 í fyrra og í Svartá hafa einungis veiðst 13 laxar en í fyrra höfðu 53 laxar komið á land.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga