Jón Árnason
Jón Árnason
Fréttir | 01. ágúst 2019 - kl. 08:55
200 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar

Málþing verður á Skagaströnd á afmælisdegi Jóns Árnasonar, þjóðsagnasafnara og bókavarðar, laugardaginn 17. ágúst næstkomandi. Dagskráin hefst með guðsþjónustu í Hofskirkju klukkan 11. Síðan verður afhjúpað söguskilti við Skagabúð og boðið verður til veitinga í félagsheimilinu Skagabúð. 

Fyrsti fyrirlesturinn verður í Skagabúð en svo hefst málþingið sjálft í Fellsborg á Skagaströnd klukkan 13:30 og þar verða tónlistaratriði, ávörp og fleiri fyrirlestrar. Við Spákonufellshöfða afhjúpar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, lágmynd af Jóni Árnasyni klukkan 16:30 og einni stundu síðar opnar Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður litla sýningu frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni í fræðasetri HÍ í Gamla kaupfélagshúsinu.

Morguninn eftir verður ganga á sjálft Spákonufellið með leiðsögn Ólafs Bernódussonar.

Fyrirlesarar verða: Vilhelm Vilhelmsson, Rósa Þorsteinsdóttir, Kristján Sveinsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, en ávörp flytja forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og oddvitar Skagabyggðar og Skagastrandar. Sr. Bryndís Valbjarnardóttir predikar í Hofskirkju og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir er organistinn, en hún stjórnar einnig tónlistaratriðum á málþinginu. 

Á haustmánuðum verða ráðstefnur í Landsbókasafninu og á vegum Árnastofnunar og afhjúpuð verður lágmynd af Jóni bókaverði í Þjóðarbókhlöðu og svo mun Reykjavík, bókmenntaborg Unesco setja upp s. k. bókmenntaskilti á Laufásvegi, við hús Jóns. Lágmyndina gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.

Landsmenn eru boðnir velkomnir til þessarar hátíðarsamkomu eða á einstaka þætti hennar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New