Blönduós. Sameiningarviðræður standa yfir hjá sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu.
Blönduós. Sameiningarviðræður standa yfir hjá sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu.
Fréttir | Sameining A-Hún | 03. ágúst 2019 - kl. 10:51
Vilja fækka sveitarfélögum

Þingsályktunartillaga um stefnumarkandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga verður lögð fram á þingi í haust, að því er fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins á dögunum og haft er eftir Þórmundi Jónatanssyni, upplýsingafulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Meðal annars er kveðið á um fækkun sveitarfélaga í tillögunni. Valgarður Hilmarsson, fyrrum sveitarstjóri á Blönduósi, er formaður starfshóps sem unnið hefur að tillögunni. Segir hann í samtali við RÚV að tilgangurinn sé að efla sveitarstjórnarstigið.

Valgarður segir að hvetja eigi sveitarfélögin til þess að sameinast. Einn liður í hvatningunni sé að sýna fram á að með stækkun sveitarfélaga verði samfélagið öflugra og geti betur sinnt verkefnum í þágu íbúanna. Þá verði væntanlega einnig fjárhagsleg hvatning fyrir sveitarfélögin. Hann segir að sveitarfélögin fái aðlögunartíma til þess að sameinast af sjálfsdáðum. Eftir það verði þeim gert að sameinast.

Valgarður segir einnig að margt sé lagt til í tillögunum annað en fækkun sveitarfélaga. Starfshópnum hafi verið falið að gera áætlun um starfsemi sveitarfélaga til næstu fimmtán ára. Þar sé meðal annars að finna nálgun að íbúalýðræði og tillögur að því hvernig hægt sé að efla starfsemi sveitarfélaga. Margt snúi að öðru en íbúamörkum sveitarfélaga.

Hann segir að tillögurnar verði kynntar síðar í mánuðinum og lagðar fyrir aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september. Þá ætti ýmislegt að liggja fyrir, svo sem hversu langan aðlögunartíma sveitarfélögin fá til sameiningarinnar. Viðbúið er að á næstu mánuðum eða vikum muni ríkisstjórnin kynna áform um að fækka sveitarfélögum landsins. Sé mið tekið af mannfjölda sveitarfélaga um síðastliðin áramót er rúmlega helmingur undir þeim mörkum sem líklegt er að miðað verði við.

Lestu nánar um málið á vef RÚV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga