Fréttir | 05. ágúst 2019 - kl. 21:26
Sauðfjárslátrun að hefjast

Kaupfélag Skagfirðinga ætlar að hefja sauðfjárslátrun á Hvammstanga næstkomandi föstudag og síðan reglulega upp úr því í svokallaðri forslátrun. Slátrunin er viku fyrr en til stóð, til að bregðast við skorti á innanlandsmarkaði. Álag á grunnverð verður 30% á slátrun 9. ágúst og greitt á alla dilka þyngri en 12 kg. SAH Afurðir ætlar að byrja að slátra 6. september eða í viku 36. Álag verður 11% í viku 36 og viku 37. Álag í viku 38 verður 4%. Sjá má verðlista haustsins hjá SAH Afurðum hér og hjá sláturhúsi KVH á Hvammstanga hér.

Í tilkynningu frá Kjötafurðastöð KS segir að áætlað sé að heildarfjöldi í slátrun fram að sláturtíð geti numið um 10-12.000 lömbum, en það sé að sjálfsögðu háð því að bændur séu tilbúnir í að koma með lömb til slátrunar. Það hafi bændur gert undanfarin síðsumur en þá hafi verið slátrað sérstaklega fyrir Ameríkumarkað, en nú sé ætlunin að þetta fari allt á innlendan markað.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga