Björn Sigurðsson sem flestir í Húnaþingi vestra þekkja undir nafninu Bangsi hlaut samfélagsviðurkenningu Húnaþings vestra árið 2015. Ljósm: hunathing.is
Björn Sigurðsson sem flestir í Húnaþingi vestra þekkja undir nafninu Bangsi hlaut samfélagsviðurkenningu Húnaþings vestra árið 2015. Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 06. ágúst 2019 - kl. 10:05
Reisa minnisvarða um Bangsa

Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra nýverið var lagt fram bréf frá Guðmundi Hauki Sigurðssyni, fyrir hönd Kótilettunefndar, þar sem óskað er eftir leyfi til að koma fyrir minningarskilti á Bangsatúni um Björn Þóri Sigurðsson, eða Bangsa eins og hann var gjarnan kallaður. Byggðarráð fagnaði erindinu og var því vísað til skipulags- og umhverfisráðs. Bangsi féll frá í september á síðasta ári, 83 ára að aldri.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Guðmund Hauk og áætlar hann að minnisvarðinn verði reistur í haust á túninu. „Bangsi var hvunndagshetja ef svo má segja,“ segir Guðmundur. „Hann var ákaflega vel liðinn af bæði fullorðnum og börnum og var alltaf að bjástra eitthvað í þorpinu.“

Bangsi var ókvæntur og barnlaus og starfaði lengst af sem verkamaður. Þá reri hann einnig til fiskjar á bát sem hann smíðaði sjálfur um tvítugt. „Auk þess að koma upp skiltinu ætlum við að reyna að varðveita bátinn, endurbyggja hann og hafa hann einhvers staðar til sýnis,“ segir Guðmundur Haukur í Fréttablaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga