Fréttir | 06. ágúst 2019 - kl. 16:10
Húnavatnshreppur gerir athugasemdir við tillögur um fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð

Húnavatnshreppur hefur sent nefnd um miðhálendisþjóðgarð umsögn vegna tillagna hennar um fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð. Inni á Samráðsgátt stjórnvalda má sjá drög að tillögum nefndarinnar sem skipuð var í fyrravor í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Tillögurnar snúa m.a. að skilgreiningu á mörkum þjóðgarðs, áherslur um skiptingu landssvæða innan þjóðgarðsins í verndarflokka og umfjöllun um aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar.

Í umsögn Húnavatnshrepps segir að á vegum sveitarfélagsins hafi verið fjallað um áhrif þjóðgarðsstofnunar fyrir sveitarfélagið og greining á þeim áhrifum tekin til umfjöllunar í sveitarstjórn. Helstu sjónarmið Húnavatnshrepps eru svo sett fram í sjö liðum. Í þeim segir m.a. að ljóst sé að stofnun þjóðgarðs feli í sér verulega takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga og þar með forræði sveitarstjórnar á að marka stefnu um þróun byggðar og landnotkunar í sveitarfélagi. Þá takmarki stofnun þjóðgarðs ráðstöfunarheimildir sveitarfélaga yfir þjóðlendum og heimildir til að afla tekna vegna starfsemi í þjóðlendum, sem sveitarfélög geti nýtt í þágu þjóðlenda innan sveitarfélagamarka.

Einnig segir í umsögninni að ekki hafi verið tekið til umfjöllunar, né tekið upp samráð á vegum lýðræðislega kjörinna fulltrúa um kosti og galla þjóðgarðsstofnunar, m.a. með tilliti til annarra friðunar- og verndarheimilda, samanber til dæmis nýleg náttúruverndarlög og heimildir til hverfisverndar samkvæmt skipulagsáætlunum.

Lestu umsögn Húnavatnshrepps hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga