Fréttir | 09. ágúst 2019 - kl. 15:51
Heildartekjur hæstar á Skagaströnd

Árið 2018 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 6,6 milljónir króna að meðaltali eða að jafnaði um 553 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan hefur birt á vef sínum. Tölurnar byggja á skattframtölum einstaklinga frá 16 ára aldri. Ef þær eru skoðaðar eftir sveitarfélögum í Húnavatnssýslum voru heildartekjur einstaklinga hæstar í Sveitarfélaginu Skagaströnd, um 6,4 milljónir eða um 533 þúsund á mánuði.

Heildartekjur einstaklinga í Blönduósbæ voru um 5,5 milljónir króna að meðaltali eða um 461 þúsund krónur á mánuði að jafnaði, í Húnavatnshreppi um 4,4 milljónir eða 369 þúsund á mánuði, í Skagabyggð um 4,5 milljónir eða 371 þúsund á mánuði og í Húnaþingi vestra voru þær um 5,1 milljón eða 428 þúsund á mánuði.

Meðaltal heildartekna árið 2018 var hæst 8,5 milljónir króna á Seltjarnarnesi og 8,4 milljónir króna í Garðabæ, en það voru einu sveitarfélögin þar sem heildartekjur einstaklinga voru að meðaltali yfir 8 milljónir króna. Heildartekjur í Bolungarvík voru 7,6 milljónir króna að meðaltali árið 2018, 7,3 milljónir króna í Kjósarhreppi og 7,2 milljónir króna í Kópavogi. Í sjö sveitarfélögum var meðaltal heildartekna undir 5 milljónum króna árið 2018. Lægstar voru heildartekjur í Akrahreppi 4,3 milljónir króna og 4,4 milljónir króna í Húnavatnshreppi.

Skoðaðu nánari umfjöllun á heildartekjum árið 2018 á vef Hagstofunnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New