Fréttir | Sameining A-Hún | 13. ágúst 2019 - kl. 21:23
Tillaga um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga birt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar, í Samráðsgátt stjórnvalda, tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Í tillögunni eru kynntar ellefu skilgreindar aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða áætlunarinnar, m.a. um lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá kosningum árið 2026.

Þá er lagt til að reglum Jöfnunarsjóðs verði breytt til að tryggja aukinn stuðning við sameiningar sveitarfélaga og heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022 og að greinargerð verði unnin um núverandi tekjustofnakerfi til að meta hvaða tekjustofnar gætu færst á milli ríkis og sveitarfélaga og nýir tekjustofnar sveitarfélaga kannaðir.

Einnig er lagt til að skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir A-hluta sveitarsjóða verði lækkað í 100% með tíu ára aðlögunartíma og að mótuð verði aðgerðaáætlun um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að meta hvort og hvaða verkefni rétt væri að flytja frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt.

Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar. Frestur til að skila umsögn er til og með 9. september 2019. Stefnt er að framlagningu þingsályktunartillögunnar á Alþingi í byrjun október.

Skoðaðu tillöguna í Samráðsgáttinni hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga