Dalsfoss í Vatnsdalsá.
Dalsfoss í Vatnsdalsá.
Fréttir | 22. ágúst 2019 - kl. 08:03
Miðfjarðará rauf 1000 laxa múrinn

Þegar fjallað hefur verið um veiði í húnvetnskum laxveiðiám í sumar hafa orð eins og úrkomuleysi, erfiðar aðstæður og litlar heimtur á laxi oft borið á góma. Ástandið í sumar hefur einfaldlega ekki verið gott og það sést vel í veiðitölum þetta veiðitímabilið. Á það við um landið allt að mestu. Miðfjarðará er sú á í Húnavatnssýslum sem mest hefur veiðst í og samkvæmt nýjum tölum Landssambands veiðifélaga rauf hún 1.000 laxa múrinn í vikunni. Veiðst hafa 1.091 laxar í ánni sem af er sumri og var vikuveiðin 105 laxar. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 2.039 laxar í ánni.

Miðfjarðará er fjórða aflahæsta laxveiðiá landsins. Sjöunda aflahæsta áin er Laxá á Ásum með 566 veidda laxa en vikuveiðin þar var 64 laxar. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 565 laxar í ánni. Blanda er í áttunda sæti með 572 laxa samanborið við 853 á sama tíma í fyrra. Vatnsdalsá er komin í 283 laxa samanborið við 353 í fyrra, Víðidalsá er komin í 276 laxa saman borið við 439 í fyrra, Hrútafjarðará stendur í 215 löxum samanborið við 245 í fyrra og í Svartá hafa aðeins veiðst 16 laxar en á sama tíma í fyrra voru þeir 110.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga