Fréttir | 23. ágúst 2019 - kl. 09:18
Íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar

Sveitarstjórn Skagastrandar telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftlagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftlagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sveitarstjórnar Skagastrandar sem samþykkt var á fundi hennar 20. ágúst síðastliðinn. Á fundinum var lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaginu þar sem stofnfundur samráðsvettvangs sveitarfélaga um loftlagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn var í júní, skorar á sveitarstjórnarfundir um allt land að standa að yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga um loftlagsmál. Sveitarstjórn Skagastrandar fagnar því frumkvæði sem Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið með stofnun samráðsvettvangsins og lýsir sig tilbúna til þátttöku í honum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftlagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

„Á sínum vettvangi mun sveitarstjórn beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar sveitarfélagsins munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum,“ segir í yfirlýsingu sveitarstjórnar Skagastrandar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga