Rósberg G. Snædal
Rósberg G. Snædal
Rósberg G. Snædal talar á vormóti í Vaglaskógi 1948. Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar. Ljósmyndari: Guðmundur Guðnason.
Rósberg G. Snædal talar á vormóti í Vaglaskógi 1948. Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar. Ljósmyndari: Guðmundur Guðnason.
Pistlar | 31. ágúst 2019 - kl. 07:26
Stökuspjall: Öld er liðin ein frá fæðingu Rósbergs G. Snædal
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Alltaf var hann sama prúðmennið, velviljaður í garð samtíðarmanna og skopskynið brást ekki segir Soffía Guðmundsdóttir, baráttufélagi Rósbergs G. Snædal úr bæjarmálunum á Akureyri, en hún var ein fjölmargra vina og samstarfsmanna Rósbergs, sem minntust hans í blaðagreinum þegar hann lést aðeins 63 ára gamall.

Rósberg fæddist í Kárahlíð á Laxárdal 8. ágúst 1919, þriðji í röð fjögurra bræðra sem ólust upp með foreldrum sínum þar á dalnum sumargræna og fjallríka. 

Rósberg flutti til borgarinnar meðan bræður hans bjuggu heima við flóann og foreldrar þeirra fluttu til Skagastrandar um miðja síðustu öld. Hann kom þó fljótlega alkominn til Akureyrar, giftist Hólmfríði Magnúsdóttur frá Syðra-Hóli og þau eignuðust syni og dætur sem uxu upp þar undir Súlnatindi.

Við, sem nú sýslum með orð, eigum margt að þakka Rósberg, snjallar vísur og lýsandi ljóð, þætti af fjölmörgum Húnvetningum, sumum skáldmæltum en ekki síst að safna og gefa út Húnvetningaljóð 1955, þar sem 66 höfundar eiga ljóð og vísur. Hópur sýslunga hans var nokkuð fjölmennur þar á Akureyri, en mörg bréf og símtöl hljóta að hafa gengið milli ritstjóranna - sem voru reyndar tveir - milli þeirra og skáldanna áður en þessu glæsilega bók kom út.

Rósberg tók bæði þátt í félagsmálum og stjórnmálum meðan hann bjó á Akureyri en kennsla varð aðalstarf hans þegar á leið ævina. Þannig starfaði hann meðal Hólamanna síðustu ár ævi sinnar og Jón skólastjóri Bjarnason rifjar upp þessa haustvísu hans í minningargrein: 

Gusti svalt um koll og kinn 
kostur valtur falinn 
leitar alltaf andi minn 
inn í Hjaltadalinn. RGS

Á sextugsafmæli sínu gaf Rósberg út ljóðsafn og lausar vísur sem hann nefndi Gagnvegi. Þar kveður hann skáldbræður sína og baráttufélaga í ljóðum, þá Jóhannes úr Kötlum og Guðmund Böðvarsson. Hann yrkir gamanljóð út af fyrstu bók Móse, hringhenda kveðju til Björns á Kotá, sem hann lýkur svo:

Þú sem dáir dagsins ljóð
draumabláar vökur
þiggðu frá mér þessi ljóð
þessar fáu stökur. RGS 

Ævistarf Rósbergs G. Snædal var mikið og gott þó ekki færi hann á mis við álas, eins og kemur fram í eftirmála hans fyrir ljóðabókinni Gagnvegum. RGS segir: Það hefur verið margra mál, að ég væri afkastalítill við ljóðagerðina. Víst tjóar ekki að neita því, en tvennt kemur til: það er ort meira en nóg að magni til á Íslandi - og fá ljóðskáld held ég fyrirhittist, sem telja sér akkur í því, að láta öll sín ljóð á bækur. . . . Oft eru það aðeins nokkrar ljóðlínur sem lifa höfund sinn og minna á nafn hans. Verða hér jafnt stórir sem smáir að lúta þeim páfadómi án áfrýjunar. 

Eftirmáli Rósbergs hefst á Hávamálum:

Til góðs vinar
liggja gagnvegir
þótt hann sé firr farinn.

Bókaskrá rithöfundarins Rósbergs G. Snædal:

Á annarra grjóti, ljóð 1949
Nú er hlátur nývakinn 1954
Þú og ég, sögur 1954
25 hringhendur (50 eintök) 1954
Vísnakver 1956
Í Tjarnarskarði, ljóð 1957
Fólk og fjöll, þættir 1959
Fótgangandi um fjall og dal 1961
Nú er ég kátur, I-IV 1963
101 hringhenda 1964
Vestanátt, sögur 1965
Hrakfallabálkur  1969
Skáldið frá Elivogum 1974
Gagnvegir, ljóðasafn 1979

Tenglar á myndir og greinar um Rósberg:
Rósberg talar á vormóti í Vaglaskógi 1948: https://ljosmyndasafn.skagastrond.is/p/myndasafn/v/8/7035_Gudmundur_Gudnason_2_361?q=r%C3%B3sberg+g.+sn%C3%A6dal 

Rósberg á heimili foreldra sinna, Ægissíðu á Skagaströnd 1960: https://ljosmyndasafn.skagastrond.is/p/myndasafn/v/12/806_Mundi277?q=r%C3%B3sberg+g.+sn%C3%A6da

Nokkrar vísur og ljóð RGS á Húnaflóa kvæða og vísnavef: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=16079 

Grein Þórgunnar Snædal þegar 80 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/483780/

Eftirmæli úr Íslendingarþáttum Tímans: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=256920&pageId=3576703&lang=is&q=R%F3sberg%20G%20Sn%E6dal 

Eftirmæli í Þjóðviljanum: http://timarit.is/files/13583698.pdf#navpanes=1&view=FitH og http://timarit.is/files/13583702.pdf#navpanes=1&view=FitH 

 

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga