Hægt var að horfa á leikinn í beinni útsendingu á Facebook.
Hægt var að horfa á leikinn í beinni útsendingu á Facebook.
Fréttir | 07. september 2019 - kl. 13:55
Jafntefli á Blönduósvelli

Mikill baráttuleikur fór fram á Blönduósvelli í dag er sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar tók á móti Ægi úr Þorlákshöfn í undanúrslitum 4. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Veðrið lék ekki beint við leikmenn og áhorfendur en vindur var hvass að sunnan, súld og ausandi rigning af og til. Kormákur/Hvöt byrjaði leikinn gegn vindi og eins og við var að búast gekk erfiðlega að koma boltanum upp völlinn í átt að marki Ægis.

Ægir skoraði fyrsta mark leiksins á 30. mínútu og kom það frá markmanni liðsins Zoran Cvitkovac er hann spyrnti boltanum frá eigin vítateig. Með hjálp vindsins fór boltinn yfir allan völlinn og endaði í marki Kormáks/Hvatar.

Heimamenn náðu að jafna leikinn af miklu harðfylgi á 44. mínútu er varnarjaxlinn Francisco Miguel Ros Tovar skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í sumar. Staðan í hálfleik 1-1.

Á 53. mínútu seinni hálfleiks var Francisco Miguel Ros Tovar svo rekinn af velli með rautt spjald. Með vindinn í bakið voru leikmenn Kormáks/Hvatar ekki síðri aðilinn í seinni hálfleik þrátt fyrir að vera manni færri og fékk ágætis færi til að skora.

Ægir fékk vítaspyrnu á 87. mínútu leiksins en klúðraði henni, sem betur fer fyrir Kormák/Hvöt. Leiktíminn fjaraði síðan út og endaði leikurinn því með jafntefli 1-1. Þetta var síðasti heimaleikur Kormáks/Hvatar í sumar.

Seinni leikurinn í undanúrslitum fer fram í Þorlákshöfn á miðvikudaginn klukkan 17. Og líklega verður þar við ramman reip að draga því lið Ægis er sterkt. Lið Kormáks/Hvatar er líka sterkt og á því góða möguleika á að komast áfram í úrslitaleikinn sjálfann. 

Leikurinn í dag var í beinni útsendingu á Facebook og á tímabili horfðu tæplega 100 manns á útsendinguna. Það gerði fréttaritari og tók meðfylgjandi mynd af leiknum í gegnum tölvu sína.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga