Jón og Lárus Ægir hressir sigurvegarar. Ljósm: FB/Golfklúbburinn Ós
Jón og Lárus Ægir hressir sigurvegarar. Ljósm: FB/Golfklúbburinn Ós
Fréttir | 09. september 2019 - kl. 11:45
Jón og Lárus sigruðu Texas Scramble mótið

Í gær var árlegt Texas Scramble mót haldið á golfvöllum Skagastrandar og Blönduóss en golfklúbbar staðanna héldu mótið sameiginlega. Mótið átti að fara fram á laugardaginn en því var frestað til sunnudags vegna veðurs og viðraði vel á keppendur í gær. Byrjað var að spila fyrstu níu holurnar á Skagastrandarvelli og síðan seinni níu á Vatnahverfisvelli. Jón Jóhannsson og Lárus Ægir Guðmundsson sigruðu mótið.

Þegar Texas Scramble er leikið leika tveir kylfingar saman í liði. Fer leikurinn þannig fram að báðir slá högg af teig, síðan velja þeir þann bolta sem þeim þykir vera í betri stöðu og slá báðir boltann þaðan. Sá sem á þann bolta sem kylfingunum þykir lakari færir því sinn bolta að bolta félaga síns. Sá sem átti betri boltann slær yfirleitt á undan og hinn á eftir. Eftir þau högg endurtekur ferlið sig allt þangað til boltinn er kominn í holuna. Texas Scramble er oft spilað með forgjöf og er reglan yfirleitt sú að sameiginleg vallarforgjöf kylfinganna er tekin saman og deilt í hana með tölunni fimm.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga