Fréttir | 15. september 2019 - kl. 21:41
Heilsudagar á Blönduósi dagana 23.-28. september

Heilsudagar verða haldnir á Blönduósi dagana 23. - 28. september. Þar verður lögð áhersla á að efla hreyfingu og heilbrigt líferni innan sveitarfélagsins. Allir tímar á vegum Íþróttamiðstöðvarinnar verða fríir en einnig verða skipulögð gönguferð, hjólaferð og sundlaugarpartý. Samstarf verður við íþróttafélögin, Kjörbúðin gefur ávexti sem boðið verður uppá í Íþróttamiðstöðinni og Hjartavernd mun bjóða uppá fría heilsufarsmælingu á HSN á Blönduósi.

Heilsuhópurinn mun halda tvö námskeið; annars vegar með Dr. Janusi Guðlaugssyni, frá Heilsueflingu Janusar, þar sem hann mun fjalla um mikilvægi hreyfingar á eldri árum og hins vegar er fyrirlestur, Tækniæfingar og gönguferð með Vilborgu Örnu Gissurardóttur, en Vilborg hefur m.a. komist á topp Everest fjalls.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga