Fréttir | 15. september 2019 - kl. 22:22
Tap í síðasta leik sumarsins hjá sameiginlegu liði Kormáks og Hvatar í 4. deild

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar spilaði sinn síðasta leik þessa sumar á laugardaginn í Borgarnesi er liðið lék þar úrslitaleik um þriðja sæti 4. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Andstæðingar liðsins voru liðsmenn Hvíta riddarans en leikið var á hlutlausum velli, í leiðinlegu veðri þar sem vindur og rigning settu mark sitt á leikinn.

Leikmenn Hvíta riddarans komust yfir á 6. mínútu leiksins en Hilmar Þór Kárason jafnaði á 9. mínútu og Ingvi Rafn Ingvason kom Kormáki/Hvöt yfir á 34. mínútu. Adam var ekki lengi í paradís því Hvíti riddarinn jafnaði leikinn á 45. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar Hvíti riddarinn var kominn yfir og þeir bættu svo við forskotið á 88. mínútu og útlitið orðið dökkt hjá Kormáki/Hvöt. Það var svo í uppbótartíma að Jón Gísli Stefánsson, sem var nýkominn inná, skoraði síðasta mark leiksins sem endaði með sigri Hvíta riddarans 4-3. Það þýðir að lið Kormáks/Hvatar endar þetta tímabil í fjórða sæti deildarinnar.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga