Fréttir | 30. september 2019 - kl. 13:53
Blóðbankabíllinn á Blönduósi 2. október

Blóðbankabíllinn verður opinn fyrir blóðsöfnun á N1 planinu á Blönduósi miðvikudaginn 2. október næstkomandi frá klukkan 14-17. Blóðbankabíllinn er útibú frá Blóðbankanum og er í honum góð aðstaða til blóðsöfnunar, segir Þorbjörg Edda Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður öflunar blóðgjafa og kynningamála hjá Blóðbankanum. „Bíllinn er okkur afar mikilvægur til að nálgast nýja blóðgjafa og auðvelda virkum blóðgjöfum að gefa blóð.“

Blóðbankabíllin hefur komið á Blönduós með reglubundnum hætti í mörg ár. Þorbjörg segir að blóðgjöf sé raunveruleg lífgjöf og geti ein blóðgjöf bjargað allt að þremur lífum. Því skipti hver og einn blóðgjafi ótrúlega miklu máli. „Til þess að anna eftirspurn eftir blóði þarf u.þ.b. 2000 nýja blóðgjafa á hverju ári til viðbótar við þann hóp sem við höfum nú þegar,“ segir Þorbjörg.

Allir eru velkomnir í Blóðbankabílinn, nýir sem virkir blóðgjafar á aldrinum 18-65 ára.

Kynntu þér Blóðbankann nánar hér. Hann er einnig á Facebook.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga